Hver „sérfræðingurinn“ á fætur öðrum ryður sér nú fram á ritvöllinn til þess að lýsa því yfir að umræðan um afglæpavæðingu neysluskammta sé á villigötum. Þegar betur er að gáð er þetta upp til hópa fólk sem er að bjóða sig fram til þátttöku í stjórnmálum og ætlar sér að nýta bágindi þeirra sem glíma við vímuefnafíkn sér til framdráttar.

Það er sannarlega sorglegt að horfa upp á annars ágætt fólk berjast gegn máli sem það eflaust myndi styðja fengi það fræðslu. Óskiljanlegt er hvers vegna gott fólk vill koma í veg fyrir að mál fái framgang sem bjargað gæti lífi barna þeirra einn daginn eða alla vega komið í veg fyrir að þau þurfi að afplána dóm í fangelsi. Og að frambjóðandi skuli nýta sér dauða fjölskyldumeðlims til þess að fá athygli í fjölmiðlum án þess að reyna af minnsta mætti að reyna setja sig í spor hinnar látnu sem frambjóðandinn elskaði svo heitt. Það kallast hræsni.

Fyrir skömmu greindi lögreglumaður frá fíkli sem seldi sig fyrir neysluskammta af fíkniefnum. Lögreglan tók skammtinn og fíkillinn gerði það eina sem honum stóð til boða, að selja sig fyrir nýjum skammti. Stórvinur minn var á reynslulausn vegna fíkniefnabrots þegar hann var farþegi í bíl sem lögregla stöðvaði. Hann fékk kvíðakast og gleypti allan pokann sinn í þeirri von að hann myndi skila sér seinna. Hann lést örfáum dögum síðar vegna þessa.

Fólk sem talar gegn afglæpavæðingu neysluskammta rökstyður mál sitt með eigin hugmyndum sem oftast eru handahófskenndar, tilfinningarökum og jafnvel heldur því fram að neysluskammtar séu í raun refsilausir. Hið sanna er að neysluskammtar eru refsiverðir, fólk lendir í fangelsi geti það ekki greitt sektir sínar eða er dæmt til afplánunar fyrir ítrekuð brot. Upptaka neysluskammta stuðlar að vændi og mansali þar sem fíklar hafa oft það eina ráð að selja líkama sinn fyrir næsta skammti.

Lyftum umræðunni upp á hærra plan, hlustum á fólkið sem hefur reynslu á málaflokknum, heyrum hvað Frú Ragnheiður, Snarrótin, Afstaða, Félag hjúkrunarfræðinga og fleiri hafa að segja og samþykkjum fyrirliggjandi frumvarp heilbrigðisráðherra.