Þegar fjármálaráðherra ákvað að hefja söluferli á hlutum ríkisins í Íslandsbanka í ársbyrjun leyfðu fáir sér að vona að vel yfir 50 milljarðar myndu fást fyrir 35 prósenta hlut. Örfáum mánuðum síðar er hins vegar ljóst að það mun verða niðurstaðan þegar útboð bankans – og í kjölfarið skráning á markað – klárast í næstu viku. Ólíkt því sem mátti skilja af málflutningi dragbítanna, sem töldu tímasetninguna slæma og vildu fremur að ríkið yrði enn útlagi í hinum vestræna heimi með tvo þriðju bankakerfisins í fanginu, þá hafa markaðsaðstæður áfram þróast til hins betra og líklega sjaldan verið hagfelldari en nú til að losa um eignarhald ríkissjóðs.

Fyrir utan mikilvægi þess að fá gott verð fyrir bankann, sem allt útlit er fyrir, skiptir ekki síður að það komi að honum traustur – og dreifður – hópur innlendra og erlendra fjárfesta. Engin ástæða er til að ætla annað en að svo verði. Tveir erlendir verðbréfasjóðir, sem fjárfesta til lengri tíma litið, annar þeirra einn af stærstu hluthöfum Marels, ásamt tveimur lífeyrissjóðum – LIVE og Gildi – hafa nú þegar skuldbundið sig til að kaupa um 10 prósenta hlut. Aðkoma þeirra hefur stutt við trúverðugleika útboðsins, með því að ýta undir eftirspurn og hækka útboðsgengið, og víst er að aðrir fagfjárfestar munu fá miklu minna í sinn hlut en þeir sækjast eftir.

Fullyrða má að þátttaka almennings, sem horfir nú upp á sparnað sinn á innlánsreikningum rýrna að raunvirði, verði í methæðum. Þar kemur til ágætlega hagstæð verðlagning og sú staðreynd að lágmarksupphæðin sem almennir fjárfestar geta skráð sig fyrir – 50 þúsund krónur – hefur aldrei verið eins lág í útboðum fyrirtækja eftir bankahrunið. Mikil aðkoma almennings, sem hefur verið fráhverfur hlutabréfakaupum allt fram að útboði Icelandair í fyrra, væri heilbrigðismerki og ætti að hjálpa við að auka traust í garð bankakerfisins og eins hlutabréfamarkaðarins – og ekki er vanþörf þar á.

Flestir munu sjá að það var rétt og sjálfsögð ákvörðun að selja í Íslandsbanka í gegnum opið hlutafjárútboð.

Viðbúið var að hlutabréf Íslandsbanka yrðu seld á afslætti, hann verður líklega um 35 prósent, í samanburði við eina viðskiptabankann á markaði, Arion. Það getur tæpast talist óeðlilegt. Arion banki, sem var skráður á markað fyrir þremur árum, er rekinn með talsvert meiri arðsemi – yfir 12 prósent miðað við síðasta uppgjör – á meðan stjórnendur Íslandsbanka eiga enn nokkuð í land með að ná markmiði sínu um 10 prósenta arðsemi innan tveggja ára. Þá getur það aldrei verið eina markmið ríkissjóðs að selja bréfin á hæsta mögulega verði heldur þarf einnig að líta til eftirleiksins – að það verði virkur eftirmarkaður með bréfin og gengið fari hækkandi þegar fram í sækir svo það skapist forsendur síðar til að losa um meira af hlut ríkisins í bankanum.

Flestir munu sjá að það var rétt og sjálfsögð ákvörðun að selja í Íslandsbanka í gegnum opið hlutafjárútboð. Allt regluverk í kringum fjármálakerfið hefur tekið stakkaskiptum og bankarnir sjaldan staðið traustari fótum – engin ástæða er þess vegna að láta stöðugt að því liggja að hætta sé á því að verið sé að endurtaka leikinn frá síðustu einkavæðingu bankanna. Svo er ekki. Þeir fjármunir sem fást við söluna minnka lánsfjárþörf ríkissjóðs, á tímum þegar margir hafa áhyggjur af því að hröð skuldasöfnun muni leiða til hærri skatta og minni hagvaxtar í framtíðinni, og eins ætti mikill áhugi almennings að virka sem enn meiri vítamínsprauta fyrir hlutabréfamarkaðinn. Fyrsta skrefið við að draga úr áhættu ríkisins af bankarekstri fer vel af stað.