Fyrir nokkrum árum sat ég til borðs með forstjóra íslensks stórfyrirtækis sem var með starfsemi í mörgum löndum. Við ræddum um ýmislegt en þegar kom að fjölmiðlaumfjöllun um fyrirtækið var þessi stjórnandi með skýra og einfalda stefnu. ,,Það er mín skoðun að það sé betra fyrir fyrirtæki eins og okkar að halda sig til hlés þegar kemur að umræðu á Íslandi, “ sagði forstjórinn, en ekki af meðfæddri hógværð eða hlédrægni heldur að athuguðu máli. Hann bætti við að það væri nefnilega oft þannig að ef maður hefði sóst of mikið eftir frægð og frama, þess meiri athygli fengi maður ef manni yrði á. Þess vegna nálgaðist þetta fyrirtæki kynningarmál sín af varfærni. Færi aðeins út að vandlega yfirlögðu ráði með skýr markmið og tilgang.

Mér hefur alltaf fundist þessi stefna skynsamleg. Því stærra sem eitthvað er, því hærra verður fallið ef mistök verða gerð. Þess vegna er gott að setja sér stefnu í samræmi við markmið sín, hvort sem við erum að tala um okkur sem persónur eða fyrirtæki, félagasamtök eða stofnanir. Segja satt, vera samkvæm sjálfum okkur og velja okkur réttu slagina. Aðilar sem til dæmis taka alla slagi sem í boði eru, geta auðveldlega orðið eins og fulla frænkan sem hefur alltaf aðeins of hátt í öllum veislum. Hún fær að vera með út af fjölskyldutengslum, en flestir vildu vera lausir við hana.

Ég hef sagt það hér áður og segi enn, að þeir sem síðan ljúga eða hliðra sannleikanum gera það bara í skamman tíma. Að þessu sögðu þá máttu muna að það þýðir síðan lítið að fara að skæla yfir áhuga fjölmiðla á þér, eftir að þú hefur árum saman leitast eftir sviðsljósinu.