Því er oft haldið fram með nokkrum rétti að opinber saga og háskólasagnfræði séu úr tengslum hvor við aðra, gangi ekki í takt. Opinber saga og almenn sögukunnátta hvíla oft á einföldum söguþræði sem auðvelt er að muna, yfirleitt niðursoðinni stjórnmálasögu. Virðist gilda einu þótt slíkum söguskilningi sé hafnað í fræðilegri umræðu áratugum saman, hann er lífsseigur og hluti af rótfastri heimsmynd. Við tölum stundum um „söguskoðun sjálfstæðisbaráttunnar“ í þessu samhengi, nútímahugmyndir um „þjóð“ og „frelsi“ sem fella aldalanga sögu, menn og atburði, í einfalt form sem þægilegt er að brjóta saman og hafa í rassvasanum.

Þessi skilningur er gjarnan dreginn upp þegar ferðast er um leiksvið sögunnar, verður að landakorti sem vísar á sögufræga staði. Þangað leiðum við bæði okkur sjálf og gesti sem sækja okkur heim. Ferðalangar vilja heyra sögur, vita hvað sé merkilegt og þess virði að skoða. Ríkjandi söguskilningur ræður úrslitum um hvaða staðir og minjar teljast frásagnarverðir og minnisverðir, eru markaðir út úr hversdagsleika sínum með umgjörð og settir til sýnis. Þeir verða hluti af sérstakri atvinnugrein, menningartengdri ferðaþjónustu.

Út er komin bók eftir Helga Þorláksson, fyrrum prófessor í sagnfræði og einn okkar helsta sérfræðing um Íslandssögu fyrri alda, sem fjallar um þetta merkilega fyrirbæri, íslenska sögustaði. Ein ástæða þess að opinber saga og háskólasagnfræði ganga ekki í takt er vísast sú að fræðimenn taka ekki nógu oft og hávært til máls á almennum vettvangi heldur skrifa frekar hátimbruð sendibréf hver til annars innanhúss í fílabeinsturninum. Það er því rík ástæða til þess að vekja athygli á þessari snjöllu bók, Á sögustöðum, sem vekur til umhugsunar og endurmats á því hvernig við skiljum fortíðina, hvernig við segjum frá henni og hvernig við leiðum okkur sjálf og aðra um leiksvið hennar. Öfugt við sendibréf fræðimanna er hún skrifuð í aðgengilegum og léttum stíl fyrir allt áhugafólk um sögu og menningartengda ferðaþjónustu, neytendur og veitendur.

Helgi fjallar sérstaklega um sex sögustaði (Bessastaði, Skálholt, Odda, Reykholt, Hóla og Þingvelli) og sýnir hvernig sögulegt mikilvægi þeirra í nútímanum grundvallast á gömlum og um margt úreltum söguskilningi, líkt og sagan hafi verið „fryst“. Tilgátur og túlkanir eiga það til að verða viðtekin sannindi með tímanum og að endingu grátheilagar staðreyndir. Til þess að vekja máls á öðrum valkostum er því nauðsynlegt að ræða gagnrýnið um slík sannindi og ríkjandi viðhorf, skilja upp úr hvaða sögulega jarðvegi þau eru sprottin.

Ástæða þess að ég drep niður penna um þetta er að bækur sem þessi eru vel til þess fallnar að bæta söguskilning og sögulæsi almennings. Nú skellur jólabókaflóðið yfir og rennur mér blóðið til skyldunnar að hampa þessari skemmtilegu bók sem ég hef haft á náttborðinu undanfarna daga í von um að hún týnist ekki í straumnum. Hún hvetur okkur til þess að halda áfram að ferðast á sögustaði en með nýjar hugmyndir í farteskinu.

Höfundur er sagnfræðingur.