Þó að Charles Babbage sé oftast sæmdur nafnbótinni faðir tölvunnar má færa sannfærandi rök fyrir því að skapari tölvunnar hafi í raun og veru verið Ada Lovelace. Þegar rætt er um uppruna tölvunnar er hún þó oftar en ekki ósýnileg.

Hugmyndinni að greiningarvélinni deildi Ada með Charles í sendibréfum, eftir að hafa heimsótt vefnaðarfyrirtæki og séð hvernig vefstólar voru notaðir til að búa til efnisstranga með ýmiss konar fyrir fram ákveðnu mynstri. Í bréfunum lýsti Ada hugmyndum um vélar sem væru forritaðar fyrir ákveðin mynstur og tækju þannig við skipunum sem þær væru mataðar á fyrir fram. Greiningarvélinni sem kom fram snemma á 19. öld svipar um margt til tölvu nútímans, sem fæstir tengja við vefstóla og verksmiðjur fyrstu iðnbyltingarinnar.

Á leiðinni frá vefstól til greiningarvélar til tölvu nútímans voru ýmsar aðrar mikilvægar vörður, þar sem hugmynd Ödu þróaðist hratt, meðal annars hjá bandarísku geimferðastofnuninni NASA. Þar starfaði fjöldi ósýnilegra kvenna; stærðfræðingar, verkfræðingar og vísindamenn, sem gengu undir samheitinu mannlegar tölvur og notuðu blýant og pappír fyrir flókna útreikninga en þeir voru forsendur geimferða.

Þegar NASA tók fyrstu IBM-tölvurnar í notkun treystu fæstir karlarnir á vinnustaðnum þeim og mannlegu tölvurnar fengu að halda áfram að sjá um alla flóknustu útreikningana – og geyma IBM-tölvurnar. Þannig urðu þær fyrstar til að læra á, forrita og nota tölvur hjá NASA.

Allar þessar ósýnilegu konur og vefnaðurinn þeirra er grunnur tækninnar sem við notum alla daga. Drögum þær fram í dagsljósið.