Vistarband eilífðarinnar

Öllum fjárlagafrumvörpum fylgir viðauki þar sem einfaldir hlutir eru gerðir flóknir. Til dæmis furðuverkið í kringum kirkjujarðasamkomulag ríkisins og þjóðkirkjunnar. Keisarinn gæti svo auðveldlega leyst þann rembihnút með því að bjóða jarðirnar upp og skilað Guði andvirðinu í eitt skipti fyrir öll og frelsað fjárlögin frá illu. Skilnað ríkis og kirkju mætti síðan fullkomna með afnámi laga um sóknargjöld og láta trúfélögin um að sækja tíundina með kröfum í heimabanka. Nema Guðs og ríkisins vilji sé að flækja hlutina.

Flokkurinn eilífi

Áhyggjur af framtíð Framsóknarflokksins, sem mælist með 6,2 prósenta fylgi í könnunum, eru fullkomlega óþarfar þar sem ófeigum flokki verður ekki í hel komið. Þegar boðað verður til kosninga mun Framsóknar­traktorinn hrökkva í gírinn og keyra á eitthvert hjartans mál einhvers minnihlutahópsins. Einfalt slagorð samið út frá landakorti eða reiknistokki mun svo reisa kjörfylgið. Þetta virkaði með háum húsnæðislánum, leiðréttingum, fótboltaleiðinni og svissnesku leiðinni. Verði kosið eftir viku eru allir peppaðir fyrir maltnesku 17 prósent-leiðinni í fíkniefnalausum húsnæðiskaupum.