VIP-partí ársins

Það er mikil spenna fyrir ofur-VIP-partíi ársins. Nei, það er ekki kampavínshátíð Arion banka í Hörpu feat. Jógvan og Krjóli. Það er Brexit-ferðalag Heimssýnar í fararstjórn Halls Hallsonar. Hópurinn ætlar að vera í sjálfu Bretlandi þegar landið yfirgefur Evrópusambandið. Geta Heimssýnarmenn þá andað að sér hreinu lofti lýðræðis í stað skrifræðisóþefsins frá Brussel. Á pöbbnum verður svo rifjaður upp sigur Churchills á nasistum. Má gera ráð fyrir að hópurinn taki með sér fullar töskur af krónum í söfnunina til að endurræsa Big Ben á sigurstundinni.

Munnmælasögur

Það eru svo fleiri sem ætla sér að fagna sigri á Evrópumönnum. Sigríður Andersen hefur í hyggju að halda sjálf til Strassborgar til að taka þátt í slag ríkisins við „erlendu nefndina“ sem kennir sig við mannréttindi. Með henni í för verður 24 manna listinn sem aldrei fór á prent en sanna á að hún hafi uppfyllt rannsóknarskyldu sína sem ráðherra við skipun dómara í Landsrétt. Líkt og Biblíusögurnar forðum hefur sönnunargagnið varðveist í munnmælasögum sem hafa nú verið skrásettar.