VIP-eftirlit á Solstice

Það skapaðist mikið drama í kringum frétt Hringbrautar af boðsmiðum borgarfulltrúa á Secret Solstice tónlistarhátíðina. Mun Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafa fengið þrjá VIP-miða á hátíðina, var tilgangurinn að vera með eftirlit. Í fréttinni er sagt að verðmæti miðanna sé 450 þúsund krónur og bent á að borgarstjóri hefur ekki skráð þá sem gjöf. Verðmæti miðanna er þó nokkuð á reiki. Það hefði vissulega kostað almennan borgara 450 þúsund kall að fá VIP-miða á Secret Solstice, en inn í því er falinn matur og drykkur, sem borgarstjóri mun ekki hafa fengið sér á hátíðinni.

„Fréttaflutningur“ fyrir siðanefnd

Ekki eru allir par sáttir við reiknikúnstir Hringbrautar. Í tilkynningu frá Secret Solstice segir að borgarstjóri hafi verið með sérstakan VIP-miða sem væri ekki til almennrar sölu. Því væri fjarstæðukennt að segja að hann hafi fengið gjöf upp á 450 þúsund krónur. Rannveig Ernudóttir varaborgarfulltrúi sem sagði sig úr Pírötum vegna innanflokksdrama, gekk skrefinu lengra í málsvörn fyrir borgarstjóra og segir á Fésbók að réttast væri að taka „fréttaflutninginn“ fyrir af siðanefnd blaðamanna. Vildi hún þó ekki benda á neinar sérstakar staðreyndavillur í fréttinni.