Vináttan

Veiran skekur nú samfélög með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Trump stökk fram í fyrrinótt og lagði bann við för ferðamanna frá Evrópu til lands hinna frjálsu og hugrökku. Bretland er þó ekki með í banninu, því það er ekki aðili að Schengen, eða það var skýringin. Kannski er skýringin sú, eða kannski einhver önnur. Trump hefur ekki farið dult með aðdáun sína á Boris og virðist sjá margt líkt með sér og honum. Kannski hefur það átt sinn þátt. Hvað sem því líður er svolítið sérkennilegt að þrjár þeirra sýkinga sem hér hafa komið upp eru raktar til Bandaríkja Trumps.

Heilsa

COVID-19 hefur haft veruleg áhrif á samskipti fólks hér á land sem og víðar. Hér er handabandið landlægt en allir eru hættir að takast í hendur. Það sem áður var skínandi opnun á samskiptum, handabandið, er nú horfið og í staðinn komið vandræðalegt augnablik. Sumir hafa tekið upp á að snertast með öðrum hætti, svo sem slá saman olnbogum. Kauðslegast af þessu öllu er fótasnertingin, auk þess sem hættan á því að missa jafnvægið standandi á einum fæti vex að mun. Enginn missir jafnvægið við blessað handabandið. Þetta eru þó algerir smámunir en margir hlakka til að geta tekist í hendur á ný. Þess verður ekki langt að bíða.