Vending

Daglegir upplýsingafundir almannavarna eru orðnir fastir liðir í tilveru okkar Íslendinga. Mánuður er liðinn frá því að þeir hófust og líkt og með alla góða sjónvarpsþætti er manni farið að þykja mjög vænt um allar aðalpersónurnar. Inn á milli koma svo gestaleikarar með einhverja stæla. Fundirnir fjalla um grafalvarlegt mál og því ekkert rými fyrir einkamál. Grípa áhorfendur því allir á lofti minnsta mola um eitthvað annað en veiruna, eins og að Þórólfur hafi horft allsgáður á Helga Björns um helgina. Mun betri vending en í sápuóperunni á Alþingi þar sem þingmaður bað ráðherra um að sjúkdómsgreina hann vegna einhverrar flensu sem hann var með í desember.

Ótímabært aprílgabb

Upplýsingafundirnir hafa reynst vel við að halda landanum rólegum. Það er þó fleira sem gerir landann órólegan en veirufaraldurinn. Hagkaup ákvað að loka nammibarnum fræga fyrr en ella eftir að fjölmiðlar komust á snoðir um að til stæði að selja nammið á 70 prósenta afslætti. Æstir nammigrísir vopnaðir skóflum voru ekki sáttir við hafa hlaupið apríl í marsmánuði. Líkamar þeirra munu þakka Hagkaupsmönnum síðar.