Velvildin farin

Hálfnað er kjörtímabil Framsóknarflokkanna þriggja og sú velvild sem stjórnin naut í upphafi horfin í gleymskunnar dá. Vitaskuld er það vanþakklátt að leiða pöpulinn og örlög allra stjórna að tapa fylgi. En að minnsta kosti er það vel borgað.

Samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi njóta stjórnarflokkarnir ekki nema 44,3 prósenta fylgi. Í síðustu kosningum hlutu þeir samanlagt 52,9 prósenta fylgi en hafa ber í huga að skömmu eftir að Katrín, Bjarni og Sigurður Ingi skrifuðu skælbrosandi undir ríkisstjórnarsamstarfið mældust þau með 74,1 prósents velvild hjá þjóðarpúlsinum.

Miðjumoð

Í gær greindi mbl.is frá nýjum kjarasamningi Blaðamannafélags Íslands og Birtíngs. Allt gott og blessað nema að margir stöldruðu við myndavalið. Þar mátti sjá hinn skelegga formann Hjálmar Jónsson klæddan í treyju enska knattspyrnuliðsins West Ham United. Á borði fyrir framan hann lágu treyjur miðjumoðsliðanna Wolverhampton Wanderers, Southampton og Charlton Athletic.

Nú er vitað að Morgunblaðið á stóran myndabanka sem mikill sómi er að. Mætti því halda að þetta væru einhvers konar dulin skilaboð til lesenda.