Veiruvá

Á ferðalagi um Lundúnir um helgina var ekki að sjá að þar væri sérstakur viðbúnaður vegna kórónaveirunnar. Reyndar mátti sjá á stangli fólk sem bar andlitsgrímur en það var fjarri því meira áberandi en oft áður. Það leiddi hugann að því hvort ótti manna hér á Íslandi vegna veirunnar væri meiri en í milljónasamfélögum, þar sem návígið er jafnvel enn meira en við eigum að venjast.

Annars konar vá

Óttar Guðmundsson geðlæknir skrifaði Bakþanka í Fréttablaðið á laugardag og gerði þar hegðun Íslendinga að umtalsefni. Einkum þegar vá stæði fyrir dyrum. Fréttir af hamfarahlýnun, bráðnun jökla og landrisi við Þorbjörn væru dæmi um það sem hann nefndi hamfarablæti. Skilja mátti á Óttari að blaðamönnum væri um að kenna. Einkum þegar hann ræddi í gærmorgun við þáttagerðarmenn á Ríkisútvarpinu.

Það má vel vera að Óttar hafi rétt fyrir sér og gert sé óþarflega mikið úr umfjöllun um ógnir og aðsteðjandi vanda, en það er fjarri því algilt. Blaðamenn hafa ríka skyldu, nefnilega til að segja fréttir. Réttar, sannar og viðeigandi. Hvað sem segja má um hamfarablæti þá má telja fullvíst að þessir blaðamenn séu upp til hópa að rækja skyldu sína í þessum efnum.