Veggjöldin og fylgið

Sigurður Ingi situr nú uppi með að vera andlit veggjalda en umræðan harðnar samfara dvínandi vinsældum. Landinn er löngu búinn að gleyma að Jón Gunnarsson átti upptökin að þessu. Meira að segja Viðreisn, sem í grunninn er fylgjandi, pönkast í Sigurði. Þegar tollahliðin verða komin upp má búast við að Framsókn verði komið í pilsner-fylgi en Miðflokkurinn í rauðvíns. Þeir sem munu þurfa að keyra í gegnum hliðin eru að stórum hluta Framsóknarmenn en mörg höfuðvígja flokksins eru í nágrenni höfuðborgarinnar. Samkvæmt könnun vilja aðeins 33 prósent Framsóknarmanna eignast rafbíl, sem er eitt lægsta hlutfall hjá flokkunum. En með veggjöldum er skattheimtunni velt af rafbílanotendum yfir á bensínnotendur.

Lausnin fundin

Þingmenn ræddu í gær um loftslagsmál. Eins og oft áður skáru Miðflokksmenn sig úr fjöldanum. Þeir bentu meðal annars á kosti álvera, vöruðu við hræðsluáróðri og efuðust um kolefnisgjald. Sigmundur Davíð sagðist vilja horfa á vísindin en ekki reyna að lifa eins og í sænskri hippakommúnu. Þegar hann var forsætisráðherra spurði hann hvað væri grænna en íslenskur torfbær. Lausnin á loftslagsvandanum virðist fundin.