Væntanlegar bombur

Sú saga fer nú víða að Ellert B. Schram muni gefa út ævisögu sína á næstunni. Verður það án efa áhugaverð lesning enda var hann innvígður Sjálfstæðismaður áður en hann fór yfir í Samfylkinguna. Margt gerðist í flokkunum tveimur þegar Ellert var þar að tjaldabaki. Svo að ekki sé talað um íþróttahreyfinguna þar sem Ellert gegndi forystuhlutverki um árabil. Hljóta því margir að vera forvitnir og jafnvel eilítið smeykir um hvort Ellert komi með einhverjar bombur.

Gengjastríð

Vandræði Pírata virðast engan enda ætla að taka. Má ætla að áhersla þeirra á gagnsæi sé þeirra versti óvinur þegar kemur að innanflokksdeilum. Ólíkt öðrum flokkum þar sem flestir halda kjafti þegar flokkurinn er í vörn keppast Píratar við að opinbera sína upplifun af þessu drama sem nú er í umræðunni.

Í gær viðraði Halldór Auðar Svansson, fyrrverandi oddviti í Reykjavík, upplifun sína af skipulagsleysinu sem ríkti í flokknum. Sagði hann valddreifinguna „einfaldlega algjört strúktúrleysi sem bauð upp á 'gengjastríð' milli fylkinga eftir fullkomlega ófyrirsjáanlegum reglum“. Það að hætta var svo „ein besta ákvörðun sem hann hefur tekið“.