Utanþingsráðherrum komið fyrir

Hæfisnefndin sem fer yfir umsóknir um stöðu seðlabankastjóra skilar endanlegri niðurstöðu fyrir eða eftir helgi. Sú saga verður sífellt háværari að það liggi nú þegar fyrir að Gylfi Magnússon, fyrrverandi utanþingsráðherra í vinstristjórninni, verði valinn. Valið er endanlega í höndunum á forsætisráðherra, sem sat með Gylfa í ríkisstjórn. Háværasta sagan er þó að það sé aðeins tímaspursmál þangað til Ragna Árnadóttir, sem var einnig utanþingsráðherra í sömu stjórn, verði gerð að skrifstofustjóra Alþingis. Mun það hafa verið gert að upplagi forseta Alþingis … sem sat líka í sömu ríkisstjórn.

Skoðanir afhjúpaðar

RÚV greindi frá því í gær að fréttamenn RÚV fordæmdu harðlega bresk stjórnvöld vegna yfirvofandi framsals Julians Assange til Bandaríkjanna. Málið vekur vissulega upp stórar spurningar um réttlæti í mannlegu samfélagi og leyndarbrölt stórvelda. Það verður þó að teljast skrítið að sjá ríkisfjölmiðilinn fjalla um hvað starfsmönnum ríkisfjölmiðilsins finnst um mál líðandi stundar. Verður það að teljast ansi mikil afhjúpun á skoðunum þar innanhúss þegar bæði bresk og bandarísk stjórnvöld fá á baukinn og talað er um lýðræðisógnir.