Undnar íslenskar gólftuskur

Hörður Kristjánsson, ritstjóri Bændablaðsins sem rekur ásamt Útvarpi Sögu og Morgunblaðinu harða Miðflokkspólitík, sér svartnættið í útlöndum og útlensku auðvaldi. Í síðasta leiðara segir Hörður: „Það blasir við að haldi þessi þróun áfram mun íslenskur almenningur standa eftir sem leiguliðar fjárfesta í landi sem eitt sinn taldist vera eign íslensku þjóðarinnar. Fjárfestar munu þá hafa hér bæði tögl og hagldir … Eins og undnar gólftuskur á þvotta­snúru og þorum hvorki að æmta né skræmta. Fjárfestarnir munu jú eiga allar klemmurnar sem halda okkur uppi.“

Orðanotkunarmálið

Orðanotkunarmálið vatt hratt upp á sig í gær, frá mýflugu yfir í úlfalda og loks búrhveli. Það byrjaði allt með pistli Áslaugar Örnu dómsmálaráðherra sem Hildi Lilliendahl, Sóleyju Tómasdóttur og Maríu Lilju Þrastardóttur þótti of karllægur í orðanotkun. Inn í þetta komu síðan Erna Ýr Öldudóttir og Líf Magneudóttir. Um tíma var málið orðið óbærilegra en kvikmyndin Festen. Sérstök voru orð Maríu Lilju á Twitter: „Áslaug Arna er ekki útlensk, fátæk eða úr blokk í Fellunum.“ Inn í umræðuna mætti draga Lilju Alfreðsdóttur sem ólst jú upp í hinum vafasömu Fellum.