Tóm steypa

Í annað sinn á stuttum tíma fer fram eftirför lögreglu í miðbæ Reykjavíkur. Fyrir stuttu var konu nokkurri á jepplingi veitt eftirför um Sæbraut og Lækjargötu, sem endaði syðst í Lækjargötu. Þarna voru tugir gangandi vegfarenda á ferð og mikil hætta á ferð. Enn alvarlegra atvik varð í gærmorgun þegar maður, dasaður af vímuefnum, tók steypubíl traustataki og var veitt eftirför eftir Sæbrautinni, eftir að hann ók bílnum niður Laugaveg, Bankastræti og Lækjargötu. Í báðum tilvikum fæst ekki annað séð en að hægt hefði verið að stöðva för bifreiðanna fyrr en raunin varð. Það er ekkert grín að stöðva ökumenn sem eru viti sínu fjær, að ekki sé nú minnst á heilan steypubíl. En lögreglumenn eru sérþjálfaðir til þess og bifreiðar þeirra margar útbúnar til þess arna. Lögreglan verður því að rökstyðja fyrir borgurum hvers vegna þetta var ekki gert.

Í gangi

Það er erfitt að koma steypu úr tromlu steypubíls nema hann sé í gangi. Því verður líklega ekki breytt. Hins vegar má athuga hvort ekki sé ráð að loka verkstöðum svo tryggilega að þangað rambi ekki fólk sem fær fráleitar hugmyndir og framkvæmir þær. Það hlýtur að vera hægt að setja það í einhverja reglugerðina, úr mörgum er að velja þegar kemur að vinnuvernd, byggingum, öryggismálum og svo framvegis