Styrmir reddar oss

Stofnfundur Félags Sjálfstæðismanna um fullveldismál fór fram með viðhöfn í Valhöll í gær, sunnudag. Þangað flykktust Íhaldsmenn og ræddu um það öngstræti sem fullveldismál þjóðarinnar eru komin í, að þeirra mati. Athygli vekur að meðalaldur fundargesta var ansi hár en nánast allir fundargestir voru á eftirlaunaaldri. Þá sáust ekki margar konur á fundinum. Augljóst er því að ungar konur taka fullveldi þjóðarinnar sem sjálfsögðum hlut og þjóðin flýtur sofandi að feigðarósi í þessum mikilvæga málaflokki. Sem betur fer bauð Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, fram krafta sína til þess að gegna formennsku í hinu nýstofnaða félagi. Þar er kominn rétti maðurinn til að leiða þjóðina út úr þessum ógöngum.

Engin landamæri

Namibískir ráðherrar, sem voru staðnir að verki við að þiggja mútur, eru í nauðvörn. Stefið er kunnuglegt. Þessir ágætu valdamenn muna ekki neitt, skilja ekki neitt og gerðu augljóslega ekkert rangt. Sömu viðbrögð hafa meðal annars íslenskir ráðamenn sýnt þegar þeir hafa gert mistök og lenda í stormi fjölmiðlaumfjöllunar. Það er því smá fegurð fólgin í varnartilburðum Namibíumannanna. Viðbrögð pólitíkusa virðast ekki þekkja nein landamæri.