Stöndum þétt saman

Í gær og fyrradag stóð yfir Búnaðarþing í Bændahöllinni í Reykjavík. Þar voru fjölmörg atriði á dagskrá eins og vant er enda margt sem þarf að ræða á þingum sem þessum. Eitt vakti þó sérstaka athygli og það var ekki meðal dagskrárliða. Það var yfirskrift þingsins: „Stöndum þétt saman.“ Ekki er alveg víst að það sé í takti við tíðarandann á þessum síðustu tímum Covid-19. Hins vegar sést þegar betur er að gáð að verið er að hvetja til samstöðu í óeiginlegum skilningi enda eru salarkynni Bændahallarinnar rúmgóð og auðvelt að halda hæfilegri fjarlægð milli þingfulltrúa.

Fórnin mikla

Kórónaveiran hafði töluverð áhrif á fund borgarstjórnar í gær. Við bættist dagskrárliður þar sem borgarfulltrúar ræddu veiruna og áhrif hennar. Sjálfstæðismenn lögðu til að umræða sem þeir höfðu óskað eftir um dótturfélög borgarinnar yrði tekin af dagskrá svo hægt væri að einbeita sér að veirunni. Það var samþykkt og sömu örlög hlaut umræða um ferðamálastefnu borgarinnar. Þetta þýddi að fundi lauk fyrir klukkan sex sem er óvenju snemmt. Almannavarnir og aðrir viðbragðsaðilar hljóta að þakka borgarfulltrúum sérstaklega þeirra óeigingjarna framlag til málanna.