Sprittið

Til allrar lukku var verkföllum nærri 16.000 opinberra starfsmanna afstýrt um helgina. Þar með heldur starfsemi fjölda ríkisstofnana áfram ótrufluð og ÁTVR þar á meðal. Ekki var örgrannt um að einhverjir hefðu áhyggjur af því að geta ekki sótt sér brjóstbirtuna vegna verkfallsins. Á þessum tímum sóttvarna hefur verið lögð áhersla á notkun spírituss en aðallega útvortis. Það var því ekki af sóttvarnaástæðum sem áhyggjur af lokun ríkiseinkasölunnar grófu um sig.

Þrjú á palli

Í krísum stíga ávallt einhverjir fram með styrkri hönd og verða stjörnur fyrir vikið. Nú eru það þríeykið Alma, Víðir og Þórólfur, sem við fylgjumst með á hverjum degi. Alma talar um stöðuna á spítalanum með ákveðni en jafnframt mýkt sem róar okkur. Þórólfur um eðli veirunnar sjálfrar og hvað sé að gerast í Ölpunum af mikilli visku. Víðir stýrir þættinum með harðri hendi en gefur þó ráðrúm fyrir allar spurningar. Við berum óttablandna virðingu fyrir Víði. Þegar hann segir okkur að spritta, sprittum við. Öll sinna þau hlutverkum sínum óaðfinnanlega og koma fram sem vel æft band. Öll vitum við að þetta tekur enda og eins undarlega og það hljómar, munu sennilega margir sakna þess að sjá þau saman.