Sölsuðu undir sig stjórnarskrá

Í gær voru sjö ár síðan Íslendingar samþykktu nýja stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu. Tímamótanna var minnst með viðburði á Sólon um miðjan dag. Tímasetningin var nokkuð athyglisverð í ljósi þess að á sama tíma var stórleikur Liverpool og Manchester United í ensku úrvalsdeildinni. Ekki skal fullyrt að það hafi haft áhrif á mætingu en að minnsta kosti þurfti ekki að vísa fólki frá. Í lok viðburðarins mætti salsakennari á vettvang og kom fundargestum á hreyfingu. Gátu fundargestir því notið þess að sjá Þorvald Gylfason dansa salsa undir slagorðinu: „HVAR ER NÝ STJÓRNARSKRÁ?“ Kannski var prófessorinn að dansa til að gleyma.

Mörgum skítsama

Öll nótt er þó ekki úti enn. Síðar sama dag fengu stjórnarskrárliðar liðsauka þar sem Samfylkingin og Píratar tilkynntu að þingmenn flokkanna hygðust leggja fram frumvarp að nýrri stjórnarskrá byggt á vinnu stjórnlagaráðs. Auðvitað er útilokað að málið nái fram að ganga en framtakið blæs þó kannski lífi í kulnandi glæður stjórnlagaskráarinnar. Ekki var vanþörf á miðað við niðurstöður nýlegrar könnunar félagsvísindadeildar Háskóla Íslands. Þar sögðust 37% aðspurðra vera ánægðir með núverandi stjórnarskrá en 27% óánægðir. Restinni var skítsama.