Slæmur talsmáti

Afar áhugaverð umræða fór fram á Alþingi í gær en þar ræddu þingmenn hvernig bætt uppeldi gæti verið góð leið til forvarna og lýðheilsu. Málshefjandi var Una Margrét Óskarsdóttir sem situr á þingi sem varamaður Gunnars Braga Sveinssonar. Hún lýsti meðal annars yfir áhyggjum af ljótum talsmáta ungra drengja sem hefðu greinilega fengið að spila bannaða tölvuleiki. Einnig hrósaði hún framtaki Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi forsætisráðherra, sem setti á fót ráðherranefnd um lýðheilsu. Upp úr þeirri vinnu kom meðal annars tillaga um uppeldisnámskeið fyrir foreldra. Já, bara ef öll börn tækju nú upp talsmáta þeirra Gunnars Braga og Sigmundar Davíðs.

Hreinskilni

Sérstakt hrós fyrir hreinskilni fær Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sem tók þátt í umræðum þingmanna um uppeldi. „Herra forseti. Ég verð að játa að ég veit ekkert um lýðheilsu,“ sagði hann meðal annars. Hreinskilni af þessu tagi heyrist ekki á hverjum degi úr ræðustól þingsins og er til eftirbreytni. Þingmenn þurfa að átta sig á því að það er ekki veikleiki að viðurkenna vanþekkingu á einhverju sviði. Þetta mættu ýmsir taka sér til fyrirmyndar.