Frá degi til dags

Frá degi til dags: Skuggalegi ráðherrann

Skuggalegi ráðherrann

Eftir að hitna fór undir dómsmálaráðherrastól Sigríðar Á. Andersen fóru víða af stað veðmál um hver myndi leysa hana af þegar kæmi að hinu óhjákvæmilega. Margir veðjuðu á Brynjar Níelsson, fyrrverandi formann Lögmannafélags Íslands, enda Brynjar bæði lögfróður og ódeigur. Þeir töpuðu sjálfsagt einhverjum bjórkippum í dag en lengi er von á einum og Brynjar hlýtur að halda áfram sem skuggadómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins. Hann er umdeildur, veit af því og það sem er mest um vert er að honum er alveg sama. „Varla halda margir því fram að ég hafi öfgafullar skoðanir eða sé ofstækismaður í eðli mínu og þess vegna umdeildur?“ spurði Brynjar réttilega á Facebook í gær.

Góður Trölli

Björn Leví Gunnarsson Pírataþingmaður og Brynjar hafa ítrekað eldað grátt silfur en sú eldamennska ristir þó ekki djúpt. Björn Leví sem hefur meðal annars gefið Brynjari nafnbótina Trölli með vísan til þess sem stal jólunum. Hann upplýsti hins vegar í Fréttablaðinu í gær að ágætt væri á milli þeirra og að Brynjar væri „fínasti gaur“ sem þyrði að tala fyrir óvinsælum skoðunum og að ekki væri öll von úti þar sem Trölli varð góður í sögulok. 

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing
Auglýsing
Auglýsing