Sameinumst, hjálpum þeim

Fjórir fyrrverandi þingmenn standa fyrir söfnun fyrir bágstadda í Namibíu. Þeir virðast hafa komist að því að aðstoðar þeirra væri þörf.

Það ber vott um kristilegan kærleik að styrkja bágstadda, þó í fjarlægu landi sé. En það er sérkennilegt að Namibía hafi orðið fyrir valinu. Namibía er langt frá því að vera verst statt meðal Afríkuríkja og fjöldi ríkja sem verr standa. Það skyldi þó ekki vera að þessir fyrrverandi stjórnmálamenn hafi ætlað að senda einhvers konar pólitísk skilaboð með söfnuninni? Sóknarnefnd Hallgrímskirkju bætti svo í söfnunina og lagði fram hálfa milljón úr Líknarsjóði kirkjunnar. Það er enn sérkennilegra ráðslag en söfnunin sjálf.

Er ekki tími til að tengja?

Nú eru vélar keyrðar víða til að framleiða rafmagn fyrir tilstilli rándýrrar innfluttrar dísilolíu.

Nú fer í hönd sá tími þegar landsmenn flykkjast í ræktina til að bræða af sér lýsið. Í tilgangsleysi lyfta menn járnum og þeyta þrekhjól. Öll sú orka er til einskis. Nú þarf að finna leið til að allt þetta svitastorkna fólk framleiði rafmagn með hamaganginum. Það myndi allavega duga til að knýja posana sem nýttir eru í gríð og erg í byrjun janúar til að greiða fyrir árskortið sem liggur svo ónotað þar til aftur er kominn janúar – ári síðar.