Rökræður

Liður í samráði við almenning um endurskoðun stjórnarskrárinnar er rökræðukönnun sem fram fer um helgina. Þetta er göfug hugmynd sem gengur út á að fólk rökræði um einstaka þætti stjórnarskrárinnar. Kanna á sérstaklega hvort viðhorf fólks breytist við það að ræða hlutina og hlusta á rök og mótrök. Það verður eiginlega að teljast aðdáunarverð bjartsýni að ætla að koma 300 Íslendingum á sama stað til að hlusta á rök annarra. Það er ekki beint íslenski hátturinn að rökræða við þá sem kunna að vera á annarri skoðun en maður sjálfur og segja svo í lokin: „Já, þetta er rétt hjá þér. Þú hefur með rökum þínum fengið mig til að skipta um skoðun.“ En einhvern tímann er allt fyrst.

20. október

Þann 20. október 2012 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Mikill meirihluti vildi leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Afgerandi meirihluti vildi að náttúruauðlindir sem ekki væru í einkaeigu yrðu lýstar þjóðareign. Þjóðin vildi líka persónukjör til Alþingis í meiri mæli, jafnt vægi atkvæða og að tiltekið hlutfall kjósenda gæti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hljóta allir að bíða spenntir eftir niðurstöðum helgarinnar.