Röðin

Mál málanna liðna helgi var án efa röðin langa á Ed Sheeran sem teygði sig á laugardagskvöldinu alla leið frá Laugardalsvelli að Glæsibæ. Nú hafa þeir sem farið hafa á knattspyrnuleiki erlendis upplifað að arka inn á völl ásamt allt að 50 þúsund öðrum án þess að þurfa að bíða lengi. Um er að ræða skipulag sem Rómverjar þekktu þegar þeir byggðu Kólosseum. Vissulega er ekki aðeins skipuleggjendum tónleikanna um að kenna, en eins og Þorsteinn Víglundsson, tónleikagestur og þingmaður, benti á þá verður röðin upphaf ótal samræðna næstu mánaða og mögulega uppistaðan í næsta Áramótaskaupi.

Bætt í vopnabúrið

Að öðru sem verður líka í Skaupinu. Það bendir allt til þess að Miðflokkurinn sé að gera sig líklegan til að hrifsa til sín fylgi af Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Miðflokkurinn er búinn að hafa allt sumarið til að stilla saman strengi og verður vopnaður meiru en þriðja orkupakkanum. Formaður Framsóknarflokksins tilkynnti að hann væri að skoða lagasetningu sem myndi fækka sveitarfélögum. Allar breytingar leggjast illa í íhaldsmenn eðli málsins samkvæmt og má því gera sterklega ráð fyrir að sameining sveitarfélaga endi í vopnabúri Miðflokksmanna.