Ráðherraferð

Á meðan fólk norpaði víða um land í ísköldum húsum sínum hlýnaði mörgum þeirra, að minnsta kosti um hjartarætur, við að sjá að þjóðaröryggisráðið fundaði sérstaklega í gær. Fundurinn fór fram í funheitu húsi Stjórnarráðsins með sjóðheitt kaffi og kruðerí á borðum. Á fundinum var skipulögð ráðherraferð á hamfarasvæðið. Ekki er við öðru að búast en að þau muni færa þangað birtu og yl. Einhver bið verður hins vegar á að rafmagn komist á á þessum svæðum. En það er bót í máli að heimamenn eiga þess kost að fá sjálfu af sér með gestunum.

Afreksfólkið

Afreksíþróttafólk er fullt bjartsýni þessa dagana. Hefur hópur þeirra stigið fram og óskað eftir peningi frá ráðherra til að geta lifað samhliða því að keppa fyrir hönd þjóðarinnar á alþjóðavettvangi. Eins og staðan er í dag fær íþróttafólk engin lífeyrisréttindi, fæðingarorlof, aðgang að sjúkrasjóði eða neitt. Það er mikill misskilningur að ríkið styrki ekki afreksfólk. Til dæmis fékk ríkislögreglustjóri háar greiðslur fyrir afrek sín á sviði löggæslu. Seðlabankinn styrkir sitt afreksfólk um margar milljónir. Svo má ekki gleyma þingmönnum með skráð lögheimili úti á landi. O.s.frv. O.s.frv.