PR-slys bikarinn

Bikarinn fyrir PR-slys ársins fer líklega til Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra, sem sagði þjóðinni í vikunni að ef einhver álitamál kæmu inn á borð hans sem ráðherra varðandi Samherja, myndi hann víkja vegna tengsla við eigendur félagsins og sem fyrrverandi stjórnarformaður. Okei, hugsaði þjóðin. Tveimur dögum síðar var hann mættur sem ráðherra norður á Dalvík í partí hjá vinum sínum í Samherja.

Biðinni er lokið

Í gær kom svo loks það sem áhorfendur höfðu beðið eftir: Skoðun Hannesar Hólmsteins á Samherjamálinu. Ólíkt mörgum öðrum málum vildi hann segja sem minnst, annað en að hatur sé ógeðfellt. Gengið var á Hannes á samfélagsmiðlum en hann var fljótur að grípa til sögulegra varna. Benti hann á að Íslendingar hefðu mútað Spánverjum fyrir stríð til að kaupa saltfisk og Nígeríumönnum til að kaupa skreið.

Þessu nánast ótengt, í gær fór í loftið ný vefsíða samsæriskenningasmiðsins Axels Péturs Axelssonar, hox.is. Fyrsta „fréttin“ er um möguleg áhrif George Soros á fréttir um Samherja. Magnað hvað hægt er að hafa miklar skoðanir á málinu án þess að opna Stundina.