Paradísin Filippseyjar

Fundur stuðningsmanna Duterte með Birgi Þórarinssyni þingmanni var sérlega skrýtin samkoma. Þar voru hátt í 30 manns á öllum aldri. Hópur barna lék sér við skákborð Miðflokksmanna. Dreginn var upp fáni, hnefar steyttir fyrir myndatöku og kallað „Duterte!“. Þetta minnti sumpart á stuðningsflokk íþróttaliðs. Einn maður vatt sér að blaðamanni og sagði: „Veistu hvert slagorð forseta míns er? Það er: Ég er tilbúinn að fara til helvítis, svo að þegnar mínir geti lifað í paradís.“ Á móti kom að fáir voru tilbúnir að tjá sig. Heldur ekki þeir Filippseyingar sem áður hefur verið reynt að ná í. Einkennileg er sú paradís þar sem fólk þorir ekki að tjá sig.

Frekar Alabama en Evrópa

Ritstjórinn hugljúfi í Hádegismóum virðist vera mjög svekktur yfir því að hafa ekki kveikt á því að fyrr í vikunni var áratugur frá því að Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu. Reifst hann og skammaðist yfir því á bæði miðvikudaginn og í gær. Telur hann fráleitt að Ísland skipi sér í flokk Evrópuþjóða með aðild. Það er að vísu skiljanlegt miðað við að fyrri skrif ritstjórans kumpánlega benda til þess að hann vilji að Ísland miði sig frekar við Alabama og Filippseyjar en önnur Evrópulönd.