Óupplýstir leiðtogar

Yfirvöld hafa sætt gagnrýni úr nokkrum áttum fyrir viðbrögð sín við kórónafaraldrinum sem nú skekur heimsbyggðina. Óupplýstir leiðtogar hafa blaðrað um að loka landinu og loka þá sem eru í áhættuhópi saman í sóttkví í stórum rýmum. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir jarðaði þær hugmyndir með vísindaþekkingu sína að vopni og var það vel. Svona upphrópanir eru kannski eðlilegar í ljósi þess að margir eru skelkaðir vegna faraldursins. Það veldur þó vonbrigðum að áhrifafólk haldi ekki ró sinni og enn sárari væru vonbrigðin ef popúlískir stjórnmálamenn ætluðu að nýta sér ótta almennings til atkvæðaveiða. Núna er hvorki stund né staður til að sá fræjum efasemda um hvernig yfirvöld takast á við vandann. Slíkt skilar einfaldlega engu nema meiri ótta og það mun bara gera verkefnið erfiðara.

Treystum sérfræðingum

Það er einfaldlega engin ástæða til þess að vantreysta mati sérfræðinganna á stöðunni. Fyrsta smitið mun brátt greinast hér á landi og við verðum einfaldlega að treysta því að mat heilbrigðisyfirvalda sé rétt. Að íslenska heilbrigðiskerfið sé í stakk búið til þess að takast á við verkefnið.

Mikilvægast er að hver og einn horfi í eigin barm og fari eftir tilmælum heilbrigðisyfirvalda.