Önnur og alvarlegri mál

Á meðan meginþorri þjóðarinnar skemmti sér yfir Eurovision og umræðunum sem sköpuðust í kjölfarið þá hélt þjóðfélagsumræðan áfram um önnur og alvarlegri mál. Í útvarpsþættinum Sprengisandi í gær mættust Ólína Þorvarðardóttir, fyrrverandi þingmaður, og Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar, til að ræða nýju þungunarrofslögin. Talaði Ólína um að málið hefði þyrft mun lengri og dýpri umræðu í samfélaginu, en á sama tíma talaði hún um að henni liði illa með umræðuna. Spurning hvort það hafi ekki einmitt verið best að klára málið í þetta mikilli sátt meðal bæði þings og þjóðar.

Engar áhyggjur af orkupakkanum

Palestínuborði Hatara á Euro­vision vakti mikla athygli. Bæði hér á landi og víðar. Fjörið var mikið á Twitter en enn meira innan samfélagsmiðlahópa sem hatast við Palestínumenn. Sést bersýnilega á umræðunum þar að hatarar Hatara eru þeir sem styðja Ísraelsríki á þeim forsendum að ríkið sjálft er fyrsta skrefið í átt að heimsendi í Opinberunarbókinni. Röksemdafærslan er eftir því. Hefur því einnig verið slengt fram að Hatari hafi átt að beina sjónum almennings frá þriðja orkupakkanum. Slíkar áhyggjur eru með öllu óþarfar þar sem fimm þingmenn Miðflokksins hafa raðað sér á mælendaskrá í dag.