Ómissandi lesning

Bændablaðið sem er í eigu Bændasamtaka Íslands er ómissandi lesning. Margir hafa sterkar rætur í byggðarlögum landsins og landbúnaður heldur þeim í ábúð. Furðuskrif ritstjóra blaðsins virðast engin mörk hafa. Undir hans forystu hefur blaðið gengið í Miðflokkinn og blaðið er æ meir undirlagt baráttu gegn ESB, veru Íslands í EES og að sjálfsögðu þriðja orkupakkanum. Ritstjórinn verður sífellt æstari. Í knöppum leiðara 13. júní tekst honum að varpa fram 12 spurningum um svik og landráð. Þar segir hann Sjálfstæðisflokkinn „berjast fyrir erlent ríkjabandalag gegn hagsmunum Íslands og sjálfsákvörðunarrétti íslensku þjóðarinnar“. Það eru ekki bara átök við ritstjórann hugumljúfa í Hádegismóum.

Uppreist æru

Bæjarráð Akureyrar leggur til að bærinn breyti formlega um nafn. Nei, það verður ekki Bíladagabær eða Polltangi, heldur er óskin sú að Akureyrarkaupstaður verði að Akureyrarbæ. Gerð var skoðanakönnun meðal bæjarbúa fyrr á þessu ári þar sem kom í ljós að þrír af fjórum vildu bæ í stað kaupstaðar. Málið má rekja til fyrirspurnar Björns Levís Gunnarssonar Pírata sem spurði ráðherra hvað Akureyri héti. Fékk hann yfir sig ótal háðsglósur og var þetta notað sem dæmi um fullkomlega tilgangslausa fyrirspurn