Ofurpíratinn

Nokkur starfsmannavelta hefur verið hjá Pírötum sem leita að nýjum framkvæmdastjóra eftir að Erla Hlynsdóttir gekk frá borði og skildi eftir sig svo stórt skarð að miðað við starfslýsinguna sem birtist á Alfred.is þarf eftirmaðurinn að vera einhvers konar ofurmenni sem geti í raun einnig verið fjármálastjóri, auglýsingastjóri, kynningarstjóri, verkefnastjóri, vörumerkjastjóri, mannauðsráðgjafi og viðburðastjóri. Í fljótu bragði virðast Píratar þurfa holdgerving hugarfósturs Nietzsches enda verður strúktúrinn varla flatari en þegar ein manneskja gerir allt.

Haraldarhatur

Flest spjót standa nú á Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra sem borðalagður upp að öxlum verst af fullri hörku. Hann á líka hauk í horni í Arnþrúði Karlsdóttur, útvarpsstjóra á Sögu og fyrrverandi lögreglukonu. Morgunhugvekja Arnþrúðar í símatímanum í gær var sannkölluð eldmessa um pólitíska spillingu innan lögreglunnar. Ljóst væri að þeir sem ættu hagsmuna að gæta hefðu horn í síðu Haraldar sem hefur nú opnað á spillingarumræðuna. Arnþrúður rekur spillingarþræðina einna helst til VG og „haturslöggunnar“ Eyrúnar Eyþórsdóttur sem hafi misnotað stöðu sína til þess að ofsækja Útvarp Sögu í einmitt pólitískum tilgangi.