Nýir fjandmenn

Ísraelskir fjölmiðlar hafa nú sumir fundið nýjan fjanda til að hlaupa í skarðið fyrir Hatara-flokkinn eftir að Daði og Gagnamagnið sigraði í úrslitum Eurovisjón-söngvakeppninnar hér heima. Hljómsveitin mun í fyrra hafa sagst ætla að sitja hjá á þeim tíma því þau gætu ekki hugsað sér að fara til Ísrael þar sem lokakeppnin var í fyrra og frægt er orðið. Þar með hefur hljómsveitin verið fordæmd sem andísraelsk þar ytra – þótt ekkert bendi til þess að meðlimir Gagnamagnsins hafi nokkuð út á ísraelsku þjóðina sem slíka að setja annað en hvernig yfirvöld þar ganga fram gegn Palestínumönnum. En það verða engin tólf stig frá Ísrael í Rotterdam.

Truflun

Gríðarlega langdregin útsending RÚV frá Eurovisjón-úrslitunum á laugardagskvöldið teygðist enn frekar á langinn vegna truflunar á hljóði. Virtist það aðallega bitna á söngkonunni Ivu og síðan á Daða og Gagnamagninu sem hreinlega voru stöðvuð í miðjum klíðum í flutningi sínum í lokaeinvíginu við Dimmu. Skýringar á þessari truflun hafa ekki legið á lausu. Mun grunurinn jafnvel á tímabili hafa beinst að loftnetinu sem Iva bar á höfðinu.