Frá degi til dags

Frá degi til dags. Nokkrir daprir dagar ...

Nokkrir daprir dagar …

Guðlaugur Þór Þórðarson er víðförull, eins og utanríkisráðherra er von og vísa og hyggur nú á hringferð um landið. Skemmtilegt þar sem forverar hans hafa verið mun meira fyrir að spóka sig langt utan landhelgi. Ferðaplanið virðist þó fara eitthvað öfugt ofan í félaga hans í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, eins og fram kemur í frétt hér framar í blaðinu. Gulli mátti nefnilega lítið vera að því að túra um landið með XD-bandinu sem er nýkomið úr hringferð sem farin var í að því er virðist tvíþættum tilgangi; að ræða við kjósendur og gera grín að Brynjari Níelssyni á samfélagsmiðlum.

… án Guðlaugs Þórs

Guðlaugur telur sig þó sem ráðherra utanríkismála eiga brýnt erindi við Sjálfstæðisfólk á landsbyggðinni sem rétt er að uppfræða um nýjustu vendingar á vettvangi alþjóða. Guðlaugur ætlar því að halda sínu striki og leggja á hringveginn sama hvað félagar hans, sem eru nýbúnir að skola af sér ferðarykið, tauta og raula. Pæling samt að bjóða bara Brynjari Níelssyni með, halda áfram að dæla myndum af honum á Instagram og láta léttar háðsglósur fljóta með. Ætti að duga til að lyfta brúninni á liðinu sem Guðlaugur mátti varla vera að að skrölta með á dögunum.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing
Auglýsing
Auglýsing