Munaður

Stjórn Sorpu ýjar nú sterklega að enn frekari gjaldskrárhækkunum eftir mikla hækkun um áramótin. Reynt er að fegra þetta með sögum um hrun á kínverskum ruslmörkuðum. Ástæðan er vitaskuld GAJA verksmiðjan sem á að framleiða metangas sem enginn notar. Á nú líka að hafa fundist enn einn falinn kostnaður sem stjórnin vissi ekkert um. Stjórnin mun vitaskuld ekki taka ábyrgð á þessu frekar en hinu og spurning hvort þurfi að finna annan blóraböggul innan fyrirtækisins. Á meðan verður sífellt dýrara fyrir fólk að henda rusli og skammt í það að sunnudagsbíltúr á grenndarstöð verði munaður þeirra efnameiri. Hinir fátæku verða að éta ruslið, en það er hvort eð er ekki sótt í tunnurnar.

Hungursneyð

Alvarlegar fréttir bárust úr Vesturbæ Reykjavíkur í gærmorgun. Rjómabollur hjá Brauð og Co höfðu klárast á aðeins klukkutíma. Örvænting greip um sig og neyðarkall sent út. Teymi frá Mataraðstoð Sameinuðu þjóðanna var flogið inn og hófst handa við að greina vandann og kalla eftir vistum. Að lokum kom þungvopnaður sendibíll frá Kópavogi með birgðir fyrir Vesturbæinga en minnstu mátti muna að illa færi því að Hlíðamenn reyndu að ræna bílnum. Samkvæmt nýjustu fregnum hefur hungursneyð verið afstýrt í Vesturbænum.