Frá degi til dags

Frá degi til dags: Mínus og plús

Mínus

Flest sem Sigríður Á. Andersen, tímabundið ekki dómsmálaráðherra, gerir er umdeilt. Einnig ákvörðun hennar um að stíga til hliðar vegna leiðinda í MDE. Hún hefur frá upphafi deilnanna um skipan dómara í Landsrétt átt hauka í horni á Útvarpi Sögu, jafnt hjá dagskrárgerðarfólki og hlustendum. Á innhringjendum hefur mátt heyra að henni beri að hunsa leiðindin frá Strassborg í nafni fullveldis landsins en eftir að hún steig til hliðar í gær virðist Sögufólki hafa fallist hendur og í frétt á vefnum var hún sögð hafa sagt af sér. Síðan eru þeir til sem finnst hliðarsporið heldur klént. Illugi Jökulsson er þar á meðal og segir á Facebook: „Það er sérstakur staður í helvíti fyrir þann mann sem fyrstur fann upp á orðalaginu „stíga til hliðar“.“

Plús

Baldur Hermannsson, eldri borgari og einarður Sjálfstæðismaður, tók sinn pól í hæðina á Facebook, jákvæður að vanda. Hann sagði ákvörðunina um hliðarsporið „glæsilega“. Hún rísi tignarleg af „sínum veldisstóli, sléttir úr fellingum skikkjunnar og stikar hnarreist út úr salarkynnum æðstu stjórnvalda lýðveldisins“, segir Baldur og bítur í skjaldarrendur: „Sigríður lærir af þessari sennu, hún lærir og herðist, minnug fleygra orða: það sem ekki drepur okkur, herðir okkur.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing
Auglýsing
Auglýsing