Maður ársins

Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið halda áfram að þegja um hverjir notuðu peningaþvottavélina á árunum eftir hrun. Það er alltaf merkilegt hvað sum lög eru heilög og önnur ekki. Nú liggur fyrir frumvarp forsætisráðherra um vernd uppljóstrara. Daginn sem það verður að lögum er komið tækifæri fyrir einhvern í kerfinu að leka því í fjölmiðla án þess að eiga á hættu að verða rekinn því engum dylst að listinn á erindi við eigendur bankans. Þvert á móti yrði viðkomandi maður ársins á Rás 2.

Akureyrarborg

Nýjasta útspilið í byggðapólitíkinni er að borgarstjóri Akureyrarborgar vill að stjórnvöld viðurkenni borgina sem borg. Akureyrarborg gegni svæðisbundnu hlutverki sem stærsta sveitarfélag utan borgar óttans og hafi mörg einkenni borgar og borgarsamfélags. Sveitarstjórnarráðherra hefur því fengið erindi þar sem farið er fram á samstarf og stuðning við Akureyri sem vaxtarsvæði til mótvægis við Garðabæ og nágrenni. Samkvæmt Hagstofunni búa nær 19 þúsund manns í borginni, sem er svipaður fjöldi og í Grafarvogsbæ sem fær ekki sjálfstæði frá Vesturbænum. Er þá líklegast best að leita til nágrannasamfélaganna við Eyjafjörð um sameiningu til að fá stuðning.