Lopapeysum fækkar

Loksins er Handprjónasambandið búið að fá viðurkennt hvað telst vera íslensk lopapeysa. Ullin þarf að vera af íslenskri sauðkind, handprjónuð á Íslandi, úr nýull og prjónuð í hring án sauma en má vera opin eða heil. Nú þegar þetta liggur fyrir er ljóst að íslenskum lopapeysum hefur stórfækkað í landinu, því margar þeirra sem áður töldust íslenskar eru það ekki lengur því þær voru prjónaðar erlendis, og ekki í hring. Enn er óljóst hvort peysa sem prjónuð er af íslenskum höndum en á erlendri grund telst íslensk. Úr því þarf að skera sem fyrst.

Fínafólksveiran

Það er mildi að afstýra tókst áformum um að kenna Covid-19 við Wuhan og Ítalíu, hér á Íslandi allavega, þótt verst þokkuðu þjóðarleiðtogar heims keppist enn við að sverja hana af sjálfum sér. Fólkið á götunni hefur fyrir löngu fundið veirunni nafn. Það kennir hana við fína fólkið sem hefur ráð á að skreppa á skíði í Ölpunum í miðju skammdeginu. Þótt verkfallsaðgerðum Sólveigu Önnu hafi verið kennt um útbreiðslu veirunnar er staðreyndin sú að hún er mest á heldrimannaheimilum landsins.