Frá degi til dags

Frá degi til dags: Ljónynjan

Ljónynjan

Þótt engin séu pálmatrén í ráðhúsinu er frumskógarlögmálið þar í hávegum. Vigdís Hauksdóttir sá vinnustað sinn endurspeglast í þætti Davids Attenborough Lífsbarátta í náttúrunni á RÚV þegar Attenborough beindi tökuvélinni að ljónunum. „Ég horfði á rosalegan fræðsluþátt um líf ljóna í kvöld,“ sagði Vigdís á Facebook og tengdi greinilega við ljónynjurnar. „En það er sko ekkert grín að vera ljónynja – hún sér um allt í ljónheimum en er samt beitt gríðarlegu ofbeldi.“ Ógott enda fá merki á lofti um að dýrin í skógi Vigdísar muni í bráð lúta lögum Marteins skógarmúsar og vera bara öll vinir.

Gullasninn

Magnús Ragnarsson, fyrrverandi sjónvarpsstjóri Skjás eins, hefur lengi viljað RÚV af auglýsingamarkaði. Hann sætti færi á laugardaginn þegar Söngvakeppnin var á dagskrá en ólíkt mörgum sem hafa horn í síðu RÚV lét hann þó eiga sig að amast við meintu Hatara-samsæri og hjó aftur í sama knérunn á Twitter þar sem hann benti á að Söngvakeppnin hefði verið plássfrek í fréttum RÚV þann daginn „enda mikið í húfi að tryggja áhorf þrátt fyrir meinta Kínamúra frétta og auglýsingasölu. Sannar hið fornkveðna að enginn múr sé svo hár að yfir hann komist ekki asni klyfjaður gulli.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing
Auglýsing
Auglýsing