Króna með gati

Fréttablaðið hefur rakið raunir Wei Li sem dröslaði hingað 170 kílóum af skemmdri mynt sem bankakerfið neitaði að breyta í nothæfan gjaldmiðil. Ekki er öll von úti þar sem verðmæti krónupeninganna er tvöfalt á gengi byggingavöruvísitölunnar í raunhagkerfinu. Skömmu eftir hrun komst vélsmiður á Suðurlandi að því að það væri ódýrara að breyta krónum í skinnur með því að gata þær frekar en að kaupa innfluttar í byggingavöruverslunum. Stök bretta­skinna kostar tvær krónur í Byko þannig að hæglega má dobla verðgildi ruslgóssins hans Li með einfaldri aðgerð og mátulega nettum bor.

Ginkaupin á eyrinni

Gin er mjög móðins hjá frumkvöðlum þessi misserin og á barnum Kalda streymir strítt nýtt íslenskt gin sem enn fæst aðeins við Klapparstíginn. Íslenskar jurtir eru þar áhrifamiklar í bragðgöldrum eins þekktasta ginmeistara Bretlands og nefnist drykkurinn Ólafsson eftir skáldinu og náttúrufræðingnum Eggerti Ólafssyni. Arnar Jón Agnarsson, laxveiðileiðsögumaður og fyrrverandi handboltakappi, hefur leitt þróunarvinnuna en bakhjarlar hans eru meðal annars vellauðugir Íslandsvinir frá Bandaríkjunum og Sigurjón Sighvatsson.