Kóngur á Bessastaði?

Það virðist fátt koma í veg fyrir að Guðni Th. Jóhannesson verði endurkjörinn forseti Íslands. Það er samt lúmskt gaman að máta hinn og þennan í embættið. Stefán Ólafsson Eflingarprófessor nefndi til sögunnar Kristján Berg Fiskikóng. „Fulltrúi glaðværðar og hollustu og nálægur á hverjum degi í auglýsingatímum Ríkis­útvarpsins. Hann yrði án efa sterkur frambjóðandi,“ hefur hringbraut.is eftir Stefáni. Þetta var greinilega ekki svo langsótt en Fiskikóngurinn sjálfur segir í athugasemd: „Hvernig spurðist þetta út svona snemma?“

Góðu ráðin

Það er mjög sniðugt hjá Eflingu að boða borgarstjóra á opinn fund um kjaraviðræðurnar. Ekki nóg með að slíkt veiti smá innsýn í kjaraviðræður heldur stoppar það stjórnmálamennina af við að fela sig á bak við nafnlausa embættismenn í svona óþægilegum málum eins og hvað starfsmenn leikskóla eiga skilið að lifa á miklu á mánuði. Samkvæmt tekjublöðunum tókst borgarstjóra að hækka laun sín um meira en eina milljón króna á mánuði á fjórum árum. Það er um að gera fyrir Eflingarfólkið að spyrja hann, og meira að segja aðstoðarmann hans, um einhver góð ráð við að hækka laun.