Klúður á klúður ofan

Vandræðalega saga ársins er hvernig stjórnmálin hafa tekið á Klausturmálinu. Vanhæfnin kristallast í deilum um hvort Bergþór Ólason megi vera formaður umhverfis- og samgöngunefndar, sem hann á endanum mátti. Eins og það skipti máli. Siðanefndarmálið var eitt stórt klúður, tímasóun sem skilaði engu. Klausturmenn tóku út sína refsingu þegar málið kom upp. Bæði gagnvart almenningi og samstarfsfólki. Þeir misstu ekki lýðræðislegt umboð eða rétt til að taka þátt í nefndarstörfum. Þeir misstu virðingu og einangruðust. Í stað þess að beita þessum klúðurslegu aðferðum hefðu andstæðingarnir átt að glotta út í annað og leyfa þeim að stikna í eigin vessum.

Bjarna blöskraði á barnum

Bjarni Ben fór á barinn um daginn og komst að því að bjór er dýr á Íslandi. Gæti það verið að háir áfengisskattar spili þar inn í? Aðeins stórstúkusamfélagið Noregur stendur okkur framar í þeim efnum. Annars er gott að vita að fjármálaráðherra sé að stíga inn í raunhagkerfið líkt og leiðtogar fortíðar. Gvendur heitinn jaki vissi alltaf hvað mjólkurlítrinn kostaði. Nú er spurning hvað Bjarni gerir við uppgötvunina. Hvort hann muni beita óumdeildum áhrifum sínum til að lækka skatta eða endurvekja Verðlagsráð.