Kjarni málsins

Klaustursmálið ætlar engan enda að taka. Vandinn er sá að margir eru strax byrjaðir að gleyma hvað málið snerist um. Drykkja á vinnutíma, tal um sendiherrakapal og ósíaðar skoðanir um hinn og þennan. Harðasta talið beindist þó að konum, voru þær meðal annars kallaðar „apakettir“ og „kuntur“. Að ógleymdum öllum vandræðaganginum um hver man hvað, hver sagði minna en hinn og hverjir aðrir gætu hafa verið á Klaustri kvöldið örlagaríka. Þegar þetta er haft í huga er ansi hjákátlegt að velta upp hvað Persónuvernd eða öðrum aðilum finnst um málið.

Hver lak?

Samsæriskenningarnar sem fylgdu í kjölfarið eru ekki minna ævintýri en sögurnar sem sagðar voru á Klaustri. Vekur það óneitanlega spurningar, ef Bára Halldórsdóttir var ekki stödd á Klaustri fyrir tilviljun þá hlýtur einhver utanaðkomandi að hafa vitað af fundinum. Eða þá að einn Klaustursþingmannanna hafi lekið tímasetningunni og staðsetningunni til þess sem átti að hafa sent Báru. Það kemur kannski í ljós eftir að siðanefnd þingsins, sem á fáa ef einhverja vini þessa dagana, lýkur umfjöllun sinni um málið.