Jöfnuður og réttlæti

Dómsmálaráðherra stefnir að því að leggja niður mannanafnanefnd, hina miklu grýlu sem fylgt hefur þjóðinni í rúma öld. Loksins verður þjóðinni treyst fyrir að nefna börnin sín. Nú megum við heita Satan, Snati, Szczepa eða hvað sem við viljum. Sjálfsagt munu einhverjir spyrna við og reyna að kæfa og ófrægja frumvarpið. Sér í lagi fólk með ættarnöfn, bláblóðungar Íslands. Lengi hafa Thorsarar, Briemarar, Blöndalar og Thoroddsenar staðið varðstöðu um mannanafnanefnd og einokun ættarnafna. Ber því að fylgjast vel með Ingu Sæland, Kolbeini Proppé og Sigríði Andersen næstu vikurnar. Hér er mesta jafnaðar- og réttlætismál sögunnar á ferðinni, því ef frumvarpið nær í gegn geta allir orðið ríkisbubbar.

Óþægileg sóttkví

Tíu Íslendingar eru fastir í sóttkví á lúxushóteli á Tenerife. Þúsund gestir eru á hótelinu og þegar hafa fjögur smit verið staðfest. Ætla mætti að mikilvægt væri að takmarka samneyti hótelgesta eins og hægt er. En það virðist öðru nær. Miðað við frásögn Íslendings á hótelinu flatmaga sumir gestir við hótelsundlaugina og borða svo saman í mötuneytinu. Vonandi taka landar vorir ytra upp stífa einangrunarstefnu, halda sig inni á sínum Egilshallar-herbergjum og freista þess að klára Netflix á næstu tólf dögum.