Íþróttir efla alla dáð

Á daglegum upplýsingafundi í gær kom fram að Víðir okkar allra hefði sjálfur farið í vettvangsrannsókn til að kanna sannleiksgildi ábendinga um að tveggja metra regla og tuttugu manna samkomubann væri ekki alls staðar í hávegum haft. Hann hafi í þeirri ferð rekist á að 50 manna íþróttaæfing hefði verið haldin um helgina, jafnvel þó blátt bann sé lagt við því. Þetta er alvarlega en í fyrstu virðist. Kunnugt er að lestrarkunnáttu yngri aldurshópa hefur hrakað nokkuð og PISA-könnun bendir til að sama eigi við um raungreinar, jafnvel einfalda stærðfræði. Það skyldi þó ekki vera að þeir sem fyrir íþróttaæfingunni stóðu séu hvorki læsir né átti sig á að fimmtíu er meira en tuttugu?

Birgðir

Fyrir hreina slysni fundust í síðustu viku birgðir 6.000 sýnatökupinna á Landspítalanum. Enginn virðist hafa vitað að þeir voru til. Þetta vekur upp þá von að í birgðahaldi spítalans leynist enn fleiri fjársjóðir nú á raunastund. Ætli finnist líka fleiri rúm eða jafnvel heilu deildirnar sem enginn vissi af? Það er varla gaman að þessu gerandi, en þetta var sannarlega ánægjulegur fundur.