Hvar eiga allir að vera?

Reykjavíkurborg sér ekkert að því að koma smáhýsum fyrir fólk, sem er mögulega í virkri neyslu, fyrir á bílastæði áfangaheimilis og AA-fundarsala við Héðinsgötu. Nú vantar hins vegar fleiri staði fyrir smáhýsi og reynir á góðmennskuna, hversu langt hún nær. Það er rangt að það sé skortur á plássi. Hægt er að koma fyrir smáhýsum fyrir heimilislausa við Ingólfsstræti, á gatnamótum Óðinsgötu og Spítalastígs, gatnamótum Flókagötu og Lönguhlíðar, að ógleymdu risastóru plássi við gatnamót Katrínartúns og Borgartúns.

Stórir strákar …

Miðflokkurinn virðist hafa fengið allt sem hann ætlaði sér með því að breyta þriðja orkupakkanum í ægilegt pandórubox með langdregnum orðagöldrum. Vissulega háleit markmið að ætla sér að ná fylginu upp um 3 til 4% í könnunum og hrista af sér Klaustursþynnkuna. Eins og skáldið kvað forðum þurfa stórir strákar stundum að fá raflost til þess að ná sér á strik. Kjaftaskarnir af Klaustri fengu þvílíkt rokna stuð frá Brussel að Miðflokkurinn er orðinn sá næst­stærsti á landinu. Góða fólkið kann hins vegar ekki fótum sínum forráð og skakklappast fjórklofið upp í samanlagt 40%. Íslandi allt og skál í boðinu!