Hundsbit

Huldupenninn Týr álpaðist til þess að reita hvassyrtan mannskap til reiði í pistli sínum í Viðskiptablaðinu þegar hann gerði Berg Þór Ingólfsson að höfundi ádeiluleikritsins Svartalyng og reyndi að tjarga hann og fiðra fyrir þær sakir og meinta lélega aðsókn. Hinn rétti höfundur, Guðmundur Brynjólfsson rithöfundur og djákni, lætur Tý ekki eiga neitt inni hjá sér á Facebook. Segir hann í „innstu íhaldsklíku Sjálfstæðisflokksins“ sem situr uppi með „viðbjóðslegt skítabix“ með vísan til ærulyftingar barnaníðingsins Róberts Downey sem bergmálar í verkinu. „Það er vel skiljanlegt að maskínan reki út hundræfla sína um hálfu ári eftir að verkið var tekið af fjölunum.“

Bolabragð

Týr, líklega nafnleyndinni feginn, kallaði rafræna reiðiöldu yfir sjálfan sig og Viðskiptablaðið. Halldór Auðar Svansson, fyrrverandi borgarfulltrúi, er á meðal þeirra sem lögðu orð í þann belg og sagði sjúkt að veitast að Bergi fyrir það eitt að „taka upp hanskann fyrir dóttur sína í réttlætisbaráttu sem þolandi kynferðisofbeldis“. Þá lýsti hann Tý tudda sem veit að hann hefur vondan málstað að verja og þakkaði „ritstjórn Viðskiptablaðsins enn og aftur fyrir að sýna hið rétta andlit blaðsins“.