Hörmuleg örlög

Sífellt færist í vöxt að ákveðnir fjölmiðlar greini frá andláti Íslendinga í fréttum. Það er gott og blessað en breytingin er kannski sú að fjallað er um einstaklinga sem seint gætu talist þjóðþekktir. Oft er vísað í tilfinningaþrungna minningargrein í blöðum eða á samfélagsmiðlum og þá sérstaklega ef einhver frægur heldur á penna. Nýlega var greint frá því að útförum í kyrrþey væri að fjölga. Sérfræðingur vildi meina að hár kostnaður væri ástæðan en kannski er skýringin sú að fólk vilji ekki enda æviskeið sitt sem eldingaskreytt smellubeita.

Drekinn eða ekki drekinn

Fjölmiðlar greindu frá því í vikunni að kirkjuráð þjóðkirkjunnar hefði samþykkt einróma að segja upp ráðningarsamningi Odds Einarssonar, framkvæmdastjóra ráðsins. Kom fram í fyrirsögnum að Oddi hefði verið sagt upp störfum og var ein ástæðan sögð samskipti hans við verkefnastjóra hjá Biskupsstofu. Oddur neitaði því opinberlega að hafa verið rekinn en sagðist kannast við að hafa fengið boð um viðræður um starfslokasamning. Hann hefði þekkst það góða boð og falið stéttarfélagi sínu að semja fyrir hans hönd. Hætti hann störfum umsvifalaust og kvaðst kveðja sáttur. Eftir standa lesendur og skilja ekki alveg hver munurinn er nákvæmlega.