Hin útvöldu

Loftslagsráðstefna SÞ fer nú fram í Madríd. Auk umhverfisráðherra fara þangað fjórir þingmenn. Þar á meðal Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigríður Á. Andersen. Þessi sami Sigmundur og nýlega skrifaði grein í erlent tímarit þar sem hann sagði að bráðnun jökla á Íslandi væri ekkert vandamál. Já, og þessi sama Sigríður og nýlega sakaði Umhverfisstofnun um að stunda falsfréttir við framsetningu á tölfræði. Sigmundur hefur varað við áhrifunum sem umræðan hafi á börn. Vonandi hittir hann Gretu Thunberg og útskýrir að það sé ekkert að óttast.

Tækifærismennska

Mikill viðsnúningur hefur orðið hjá dómsmálaráðherra um meint fordæmisgildi Landsréttarmálsins. Þótt mögulegt fordæmisgildi hafi verið meðal helstu röksemda fyrir endurskoðun yfirdeildar MDE hefur ráðherra blásið á það nú þegar Pólverjar hafa lýst stuðningi við mannréttindabrot íslenskra stjórnvalda. Þótt þeir telji íslenska málið mikilvægt fyrir framtíð slíkra brota í Evrópu snýr ráðherra frá fyrri áherslum og segir málið ekkert fordæmisgildi hafa fyrir Evrópu. Hvað er þá eftir af mikilvægi endurskoðunar annað er sérhagsmunir laskaðra stjórnmálamanna?